1 Ágúst 2009 12:00

Töluverður erill var hjá lögreglunni sl. nótt. Sinna þurfti ýmsum útköllum, bæði í Herjólfsdal og bænum sjálfum. Um kl.04:00 kom kona á þrítugsaldri að máli við lögreglu í Herjólfsdal og tilkynnti að sér hafi verið nauðgað. Hún var flutt á sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum til aðhlynningar. Kona þessi gaf greinagóða lýsingu á geranda og er hans nú leitað. Undir morgun var tilkynnt um aðila sem hafði orðið fyrir líkamsárás af aðila sem hann ekki þekkir. Þessi aðili var fluttur á sjúkrahús en töluverðir áverkar eru á andliti hans og grunur um nef- og kinnbeinsbrot. Bæði þessi mál eru til rannsóknar hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.

Þá hafa komið upp 10 fíkniefnamál það sem af er hátíðinni. Í einu þessara mála er grunur um sölu þar sem tíu skammtar af fíkniefnum fundust á ungum manni og einnig töluverð upphæð af peningum. Þessi maður gistir nú fangageymslu vegna rannsóknar á málinu.

Um kl. 22:00 í gærkveldi var ekið á 10 ára gamla stúlku á Illugagötu. Stúlkan var flutt á sjúkrahús en meiðsli eru ekki talin alvarleg.  Ýmis önnur mál komu upp, t.d. þurfti að aðstoða vélarvana skemmtibát á leið til Eyja frá Reykjavík og ungur maður féll ofan af svölum í vesturbæ Vestmannaeyja.

Á daglegum samráðsfundi lögreglu með samkomuhöldurum og læknum kom fram að mjög miklar annir hafi verið milli kl. 00 og 03 í nótt.  Í dag mun enn bætast við þjóðhátíðargestir til Eyja. Herjólfur mun fara eina ferð í dag með yfir 500 manns og þá er mikið bókað í ferðir með flugfélögunum. Lögreglan áætlar að hingað séu komnir vel á tíunda þúsund manns sem muni bætast við heimamenn í Herjólfsdal.