4 Ágúst 2012 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunní Vesmannaeyjum síðustu nótt.  Rólegt var fyrrihluta nætur, en þegar leið á nóttina fór verkefnum að fjölga. Þrír gistu fangageymslu síðustu nótt vegna kærumála og ölvunarástands en nokkuð var um pústra og slagsmál í Herjólfsdal.

Undir morgun kærði ung stúlka nauðgun í Herjólfsdal. Hún var send á neyðarmóttöku í Reykjavík og er málið í rannsókn hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum.

Tvær líkamsárásir voru kærðar í nótt og voru báðar í Herjólfsdal. Önnur var sínu alvarlegri er 19 ára maður sló mann þannig að flytja varð þann á sjúkrahús. Um er að ræða alvarlega árás og er grunur að árásarþoli sé höfuðkúpubrotinn. Atvikið náðist á eftirlitsmyndavélar sem hátíðarhaldarar settu upp fyrir þessa hátíð og koma upptökurnar að notum við rannsókn málsins. Árásaraðilinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Hin líkamsárásin varð með þeim hætti að par kærði aðila fyrir að ráðast á þau. Vitað er hver var árásaraðili og verður hann boðaður í skýrslutöku vegna rannsóknar á málinu.

Um kl. 02:00 í nótt var tilkynnt um rúðubrot í versluninni Tvistinum og sá er það gerði væri á leið frá staðinum. Lögreglumenn hlupu hann uppi og færðu á lögreglustöð þar sem hann viðurkenndi rúðubrotið.

Fíkniefnamálin í tengslum við hátíðina eru nú orðin 23 talsins og eru öll málin svokölluð neyslumál. Haldlögð efni eru marijúana, amfetamín og einnig hafa verið haldlagðir ofskynjunarsveppir. Um 6 lögreglumenn sinna þess eftirliti auk fíkniefnahundanna Lunu frá Vestmannaeyjum, Vinkils og Toby.

Lögreglan áætlar að að gestir á hátíðinni séu nú eitthvað yfir tíu þúsund og enn mun bætast við í dag og á morgun með Herjólfi og flugi.

Veður í nótt var gott, hlýtt en nokkuð hvasst svo einhver tjöld fuku og var tjaldbúum boðin gisting í íþrótthúsi bæjarins og þar gistu um 40 manns í nótt undir umsjón gæsluliða.