3 Ágúst 2013 12:00

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum nótt vegna ölvunar og óspekta.  Veður var eindæma gott, hlýtt, úrkomulaust og logn.  Gestir á hátíðinni eru nú komnir yfir 10 þúsund og í dag, laugardag eru ferðir Herjólfs þéttbókaðar.

Í nótt leitaði tvítug stúlka til gæslumanna í Herjólfsdal vegna kynferðisbrots, sem hún sagði að átt hefði sér stað í Dalnum. Hún benti á lögreglu á tjaldið þar sem brotið mun hafa átt sér stað og var maður handtekinn þar skömmu síðar og hann vistaður í fangageymsla vegna rannsóknar málsins. Stúlkan var flutt á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja til skoðunar. Hún vildi ekki kæra manninn en málið er í rannsókn og verða teknar skýrslur í dag af manninum og þeim vitnum sem hugsanlega koma við sögu til nota síðar ef konan ákveður að kæra.

Átta fíkniefnamál komu upp í gær og nótt og eru þau mál því orðin 14 frá því á miðvikudagskvöld þegar lögreglan í Vestmannaeyjum bætti í viðbúnað vegna Þjóðhátíðar. Lagt var hald á maríhúana, en einnig var lagt hald á amfetamín og kókaín. Í einu málinu var aðili á tvítugsaldri handtekinn, en á honum fundust 40 grömm af ætluðu amfetamíni og efni til íblöndunar. Hann viðurkenndi að hafa ætlað efnið til sölu í Vestmannaeyjum um helgina. Eftir skýrslutöku var manninum sleppt og má maðurinn búast við ákæru eftir hátíðina.

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglunnar í nótt en hún átti sér stað í Herjólfsdal. Þar var maður sleginn þannig að tennur losnuðu. Vitað er hver var hér að verki og er málið í rannsókn.