30 Júlí 2016 14:04

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt og framundir morgun en nokkuð var um slagsmál og pústra í Herjólfsdal. Fjórir gistu fangageymslu, einn vegna ölvunarástands, tveir vegna fíkniefnamáls. Þá var aðili handtekinn vegna heimilisofbeldis og var hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Þrjár minniháttar líkamsárásir eru til rannsóknar hjá lögreglunni en ekki er um alvarleg meiðsli að ræða í þessum málum.

Snemma í gærkvöldi fann lögregla töluvert af fíkniefnum við leit við gististað í bænum. Tveir aðilar voru handteknir. Efnin sem haldlögð voru eru tæp 100 gr. af amfetamíni, svipað af kókaíni og 180 E-töflur. Talið er að söluandvirði þessara efna sé að minnsta kosti um þrjár milljónir króna. Um er að ræða stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum frá upphafi. Ánægjulegt er að lögregla hafi haldlagt efnin í byrjun hátíðar og komið þannig í veg fyrir að þau kæmust í umferð. Sakborningar voru handteknir vegna rannsóknar málsins og verður afstaða tekin til áframhaldandi vistunar þeirra að yfirheyrslum loknum.

Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinna fíkniefnaeftirliti og hafa sér til aðstoðar fíkniefnaleitarhunda sem eru í eigu Fangelsismálastofnunar og embætti Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum. Að mati lögreglu er mikilvægt að þessum málaflokki sé vel sinnt nú sem endranær.

Mjög gott veður var í Herjólfsdal í nótt, nánast logn og hlýtt. Sólin skín nú í Vestmannaeyjum og er búist við fleiri gestum til Eyja í dag.

Viðbragðsaðilar hittust á samráðsfundi í hádeginu í dag þar sem farið var yfir gang hátíðarinnar.