5 Ágúst 2017 13:52

Fyrsti dagur þjóðhátíðar 2017.

Nokkur erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt og framundir morgun en nokkuð var um slagsmál og pústra í Herjólfsdal. Fimm gistu fangageymslu, þrír vegna ölvunar og óspekta og tveir vegna ofbeldisbrota. Eitt kynferðisbrot er til rannsóknar hjá lögreglu sem tilkynnt var um skömmu eftir miðnætti á tjaldsvæði í Herjólfsdal. Aðilar þekktust og hafa báðir gefið skýrslu hjá lögreglu, vettvangur verið tryggður, brotaþoli færður á neyðarmóttöku og hefur sakborningi verið sleppt úr haldi.

Auk þessa er líkamsárás og húsbrot til rannsóknar eftir nóttina, þar sem veist var að húsráðanda á heimili hans.

Fjöldi fíkniefnamála er komin á þriðja tug síðan á fimmtudag.  Í einu málinu voru haldlögð um 30 gr. af hvítu efni og er talið að um sölu hafi verið að ræða. Lögreglan er að venju með mikinn viðbúnað varðandi þennan málaflokk. Sex óeinkennisklæddir lögreglumenn sinna þessu eftirliti með þrjá fíkniefnahunda.

Mjög gott veður var í Herjólfsdal í nótt, nánast logn og úrkomulaust. Mikill fjöldi hátíðargesta var í brekkunni í gærkveldi og er það mat lögreglunnar að fjöldi í brekkunni hafi verið með því mesta á föstudagskvöldi.

Enn mun bætast við gesti á hátíðarinnar en Herjólfur mun sigla 4 ferðir í dag og er vel bókað í þær.

Viðbragðsaðilar hittust á samráðsfundi í hádeginu í dag þar sem farið var yfir gang hátíðarinnar.