2 Ágúst 2008 12:00

Tvö minniháttar fíkniefnamál komu upp í nótt. Um var að ræða ætlað kókaín og mariuana. Í öðru málinu merkti fíkniefnahundur lykt af farþega sem var að koma með Herjólfi kl. 06:00 í morgun. Í ljós kom að þessi aðili var með fíkniefni innvortis. Um var að ræða 10 til 12 gr. af þessu efni. Hitt málið var þegar leitað var á aðila í Herjólfsdal. Það hafa því komið upp 2 fíkniefnamál þessa helgi. Það verður að teljas lítið miðað við þá öflugu gæslu sem sinnir þessu. Samtals eru það 7 löggæslumenn með þrjá fíkniefnahunda sem sinna þessu um helgina.

Af umferðarmálum er það að frétta að einn ökumaður var tekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Tveir aðilar voru kærðir fyrir önnur umferðarlagabrot. Tveir gistu fangageymslu vegna ölvunarástands. Einn aðili var kærður vegna líkamsárásar en hann ruddist inn í hús í bænum og sló húsráðanda. Vitað er hver árásaraðilinn er og verður hann yfirheyrður í dag.

Nokkuð var um pústra og slagsmál í Herjólfsdal. Lögregla og gæsla þurftu að hafa afskipti að nokkrum vegna þessara mála.

Á daglegum samráðsfundi lögreglustjóra með fulltrúum gæsluliða, þjóðhátíðarnefndar og sálgæslu/barnavernd kom fram að fyrsti dagur hátíðarinnar hafi tekist mjög vel og engin teljandi vandræði komið upp. Enn bætist við gestafjölda hátíðarinnar. Með Herjólfi eru að koma um 500 manns og stanslaust flogið fram á kvöld frá Bakkaflugvelli og fjórar ferðir eru farnar með Flugfélagi Íslands. Einnig er mikið bókað til Eyja á morgun. Tjaldvæði í Herjólfsdal er að fyllast og er áætlað að setja upp önnur svæði nálægt dalnum sjálfum. Ef flugfært verður þá tvo daga sem eftir eru af hátíðinni hafa verið fluttir um tíuþúsund manns til Eyja fyrir og yfir hátíðina sjálfa.