4 Ágúst 2007 12:00

Fyrsti dagur Þjóðhátíðar liðinn

Tvö minniháttar fíkniefnamál komu upp í nótt. Um var að ræða ætlað amfetamín og mariuana. Það hafa því komið upp 4 fíkniefnamál þessa helgi. Það verður að teljast lítið miðað við þá öflugu gæslu sem sinnir þessu. Samtals eru það sjö löggæslumenn með þrjá fíkniefnahunda sem sinna þessu um helgina.

Fjórir ökumenn hafa verið teknir vegna gruns um ölvun við akstur og í morgun var ökumaður léttbifhjóls kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá var ökumaður kærður fyrir akstur án ökuréttinda. Tveir voru kærðir fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis. Tveir ökumenn voru kærðir fyrir aksturs án hlífðarhjálms. Tveir voru kærðir fyrir að hafa ekki öryggisbelti spennt.

Nokkuð var um pústra og slagsmál í Herjólfsdal og liggur fyrir ein kæra vegna líkmaárásar en atvik eru þó óljós. Lögregla og gæsla þurftu að hafa afskipti að nokkrum vegna þessara mála.

Einn gisti fangageymslu fyrir að vera með vandræði í Herjólsdal sl. nótt.

Á daglegum samráðsfundi lögreglustjóra með fulltrúum gæsluliða, þjóðhátíðarnefndar og sálgæslu/barnavernd kom fram að fyrsti dagur hátíðarinnar hafi tekist mjög vel og engin teljandi vandræði komið upp. Nú skín sólin í Herjólfsdal og enn bætist við gestafjölda hátíðarinnar. Með Herjólfi eru að koma um 300 manns og stanslaust flogið fram á kvöld frá Bakkaflugvelli.