31 Janúar 2020 16:13

Fyrsti fundur lögregluráðs var haldinn fimmtudaginn 30. janúar 2020 hjá embætti ríkislögreglustjóra að Skúlagötu 21. Ríkislögreglustjóri fer fyrir ráðinu en í því eiga sæti auk hans, aðrir lögreglustjórar, þ. á m. héraðssaksóknari. Lögregluráðinu er ætlað að vera formlegur samstarfsvettvangur lögreglustjóra á Íslandi en hlutverk þess er að efla samstarf og samráð á meðal lögreglustjóra, m.a. á sviði stefnumótunar.

Allir fyrrgreindir aðilar mættu til fundarins en dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var sérstakur gestur fundarins auk ráðuneytisstjóra og annarra fulltrúa dómsmálaráðuneytisins.

Á þessum fyrsta fundi lögregluráðsins flutti dómsmálaráðherra ávarp um aðdraganda þess að ákveðið hefði verið að setja ráðið á fót, markmið þess og framtíðarsýn ráðherra í löggæslumálum. Í ávarpi ráðherra kom fram að markmið lögregluráðsins væri að samræma og samhæfa störf lögreglu með það að leiðarljósi að tryggja hagræðingu, framþróun, fagmennsku og öryggi í starfsemi lögreglunnar.

Á fundinum var farið yfir fjölmörg mál er varðar samstarf innan lögreglu, samræmingu verklags og framþróun. Má þar m.a. nefna almannavarnamálefni, bílamál lögreglu, Tetramál/fjarskiptamál, mikilvægi aukins samstarfs við hagsmuna- og samstarfsaðila utan lögreglu, tæknimál lögreglu og fleira.