20 Desember 2007 12:00

Þann 20. desember 2007 lauk fyrstu önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins en hún hófst þann 4. september s.l. 37 nemendur hófu þá nám, þrír þeirra hættu námi á önninni af persónulegum ástæðum og það voru því 34 nemendur sem þreyttu áfangapróf að þessu sinni. Einn þeirra á ólokið sjúkraprófi í einni námsgrein og annar þarf að þreyta endurtökupróf í einni námsgrein. Engin ástæða er til að ætla annað en báðir nemendurnir ljúki prófunum með fullnægjandi árangri.

Bestum námsárangri á prófum annarinnar, 9,13 í meðaleinkunn, náðu þeir Einar Sigurjónsson og Ingvaldur Magni Hafsteinsson, þar á eftir voru þeir Garðar Anton Haraldsson og Hermundur Guðsteinsson með meðaleinkunnina 8,67. Skólastjóri Lögregluskólans, Arnar Guðmundsson, veitti þessum fjórum nemendum sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.

Þann 1. janúar 2008 hefst átta mánaða starfsþjálfun nemendanna, 29 þeirra fara í starfsþjálfun hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, tveir fara til lögreglunnar á Suðurnesjum, tveir til lögreglunnar á Akranesi og einn til lögreglunnar á Snæfellsnesi.

Markmiðið með starfsþjálfuninni er að nemendurnir fái innsýn í lögreglustarfið og öðlist skilning á því; að þeir þjálfist og þroskist þannig að þeir geti leyst viðfangsefni sjálfstætt; að þeir fái skilning á samhenginu milli fræðilegu kennslunnar í grunnnámi skólans og lögreglustarfsins í raun og að þeir séu reiðubúnir til náms á þriðju önn skólans sem hefst í byrjun september og lýkur í desember 2008.

Þess má geta að þann 1. janúar 2008 hefja 45 nemendur nám á þriðju og síðustu önn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins en þeir hafa allir verið í starfsþjálfun í lögreglunni frá maíbyrjun 2007. Brautskráning þessara nemenda verður þann 18. apríl 2008 og þá geta þeir sótt um laus störf lögreglumanna.

Samkvæmt því sem hér að ofan greinir munu því alls 79 nemendur útskrifast sem almennir lögreglumenn frá grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins á árinu 2008.