15 Maí 2012 12:00

Þann 11. maí s.l. lauk fyrri bóknámsönn grunnnáms Lögregluskóla ríkisins en hún hófst þann 10. janúar s.l. 20 nemendur hófu þá nám, einum þeirra var vikið úr skólanum á önninni og það voru því 19 nemendur sem þreyttu áfangapróf að þessu sinni. Tveir þeirra þurfa að þreyta endurtökupróf í einni námsgrein og einn á ólokið sjúkraprófi. Engin ástæða er til að ætla annað en allir þessir nemendur ljúki prófunum með fullnægjandi árangri.

Bestum námsárangri á prófum annarinnar, 8,83 í meðaleinkunn, náði Helga Höskuldsdóttir, þar á eftir voru Sveinn Andri Brimar Þórðarson með meðaleinkunnina 8,75 og Hermann Valdi Valbjörnsson með meðaleinkunnina 8,63. Skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Arnar Guðmundsson, veitti þessum nemendum sérstaka viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn alls hópsins var 8,00.

Að lokinni önninni hófst fjögurra mánaða starfsnám nemendanna en markmiðið með því er að nemendurnir fái, undir leiðsögn en einnig með eigin metnaði og frumkvæði, tækifæri til að auka við þá kunnáttu sem þeir fengu á fyrri bóknámsönn og hafi, að loknu starfsnámi, öðlast þekkingu, jákvætt viðhorf og sjálfstraust til að takast á við námið á seinni bóknámsönn. Nám á henni hefst í byrjun september 2012 og grunnnámi nemendanna lýkur í desember sama ár.

Á starfsnámsönninni greiðir Lögregluskóli ríkisins mánaðarlaun nemendanna og tilteknum lögreglustjórum, hjá fimm lögregluumdæmum að þessu sinni, er falið að annast starfsnámið. Gert er ráð fyrir að nemendur verði stærstan hluta tímabilsins í almennri deild en fái einnig kynningu á öðrum deildum viðkomandi embættis í samræmi við námsskrá annarinnar.

Af hálfu skólans er lögð á það þung áhersla að nemendurnir séu í starfsnámi en ekki í afleysingum, þeir hafa starfsstigið lögreglunemi og teljast ekki til lögreglumanna, þótt þeir fari með lögregluvald þegar þeir gegna lögreglustarfi.

Nemendur fá viðeigandi einkenni á einkennisfatnað sinn áður en þeir hefja starfsnámið

Nemendur fá viðeigandi einkenni á einkennisfatnað sinn áður en þeir hefja starfsnámið