23 Október 2014 12:00

Ekki var annað að heyra en hljóðið í Garðbæingum væri gott þegar fulltrúar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu mættu til fundar við fulltrúa sveitarfélagsins í gær. Fundurinn er liður í fundaherferð lögreglunnar með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu, en á þeim er farið yfir stöðu mála og þróun brota. Garðabær er ört vaxandi sveitarfélag með rúmlega 14 þúsund íbúa, en þessa miklu fjölgun má m.a. rekja til sameiningar við Álftanes. Þar búa hátt í 2.500 manns, sem nú tilheyra hinu sameinaða sveitarfélagi.

Þegar rýnt er í tölfræðina má sjá marga jákvæða hluti í Garðabæ og má þar nefna að innbrotum á heimili fækkar á milli ára, en lögreglan leggur einmitt mikla áherslu á upplýsa þau brot. Sjálfsagt skýrir það að einhverju leyti ánægju fundarmanna, en í Garðabæ eru menn samt meðvitaðir um að stöðugt þarf að halda vöku sinni. Fundurinn var annars vel sóttur og margt var til umfjöllunar. Fíkniefnamál og nágrannavarsla voru þar á meðal, en sérstök ástæða er til að nefna að í Garðabæ hefur vel verið staðið að nágrannavörslu. Umferðarmál voru líka ofarlega á baugi, en tölfræðina frá fundinum má nálgast hér.