21 Nóvember 2012 12:00
Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu stendur yfir þessar vikurnar. Í gær var röðin komin að Garðbæingum, en staða mála í sveitarfélaginu er að mörgu leyti góð þegar afbrot eru annars vegar. Á fundinum, sem haldinn var í Flataskóla og var ágætlega sóttur, var farið ítarlega yfir þróun brota í Garðabæ undanfarin ár. Líkt og á fyrri svæða- og hverfafundum voru einnig birtar niðurstöður úr netkönnun, Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum, en þar kemur m.a. fram að rúmlega 90% íbúa í Garðabæ eru ánægðir með störf lögreglunnar.
Eftir að greint var frá afbrotatölfræði sem og niðurstöðum fyrrnefndrar netkönnunar tóku við fyrirspurnir, en fundargestir höfðu margs að spyrja. Rétt eins og í fyrra hafa íbúar áhyggjur af rafmagnsvespum og þeirri staðreynd að á þeim eru oft mjög ungir ökumenn. Akstur hinna sömu er ekki alltaf til fyrirmyndar og er vonandi að á því verði tekið í nýjum umferðarlögum og að m.a. verði settar reglur um aldur ökumanna á þessum rafmagnsvespum. Fundargestir tiltóku sérstaklega ánægju sína með sýnileika lögreglunnar í skólabyrjun og á haustin, en bættu við að sýnilega eftirlitið mætti líka vera jafn mikið hina mánuði ársins. Þess má geta að fundurinn í Flataskóla var sendur út í beinni útsendingu á netinu. Tölfræðina frá fundinum í gær má nálgast með því að smella hér.
Frá Garðabæ.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is