9 Nóvember 2007 12:00

Þegar löggæslumál eru annars vegar er ástandið í Garðabæ vel viðunandi. Þetta kom fram á fundi lögreglunnar með fulltrúum Garðbæinga sem haldinn var í gær. Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri fór yfir stöðu og þróun mála og skýrði frá tölfræði er varðar innbrot, þjófnaði, eignaspjöll, nytjastuld og ýmislegt fleira. Ekki er sjá hlutfallslega aukningu hegningarlagabrota í bænum og það eru auðvitað góð tíðindi. Jafnframt kom fram að fjöldi hegningarlagabrota er undir meðaltali þegar tekið er tillit til fjölda íbúa. Nálægt tuttugu manns sátu fundinn en áformað er að halda opinn fund með íbúum Garðabæjar síðar í vetur.

Líkt og á öðrum fundum, sem lögreglan hefur haldið með fulltrúum íbúa á höfuðborgarsvæðinu, voru umferðarmál fyrirferðarmikil á fundinum í Garðabæ. Fundarmenn höfðu bæði áhyggjur af hraðakstri á Bæjarbraut og ógætilegum akstri við Fjölbrautarskólann, svo dæmi séu tekin. Það sem af er árinu er vitað um 44 umferðaróhöpp í Garðabæ þar sem hafa orðið slys á fólki. Það skal tekið fram að í langflestum tilvikum er um minniháttar meiðsli að ræða. Flest slysin hafa orðið á Reykjanesbraut, eða ellefu. Talið er að í einstaka tilfellum sé mögulega slæmum merkingum að einhverjum leyti um að kenna. Í níu tilvikum hefur orðið slys á fólki á Hafnarfjarðarvegi og sex sinnum á Vífilsstaðavegi. Þessar götur skera sig nokkuð úr en mikil umferð er um þær allar.  

Valgarður Valgarðsson, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Guðmundur R. Guðmundsson.

Fundarmenn voru nokkuð ánægðir með gang mála í Garðabæ.

Valgarður, Geir Jón Þórisson og Ólafur G. Emilsson.