7 Desember 2012 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum hafði í fyrrinótt afskipti af ökumanni vegna gruns um að hann væri ölvaður undir stýri. Þegar hann var færður yfir í lögreglubifreið reyndist hann eiga erfitt með gang sakir ölvunar. Hann var færður á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla. Þar viðurkenndi hann að hafa drukkið áfengi áður en hann lagði af stað til Reykjavíkur, en þangað var ferðinni heitið. Auk ástandsins sem hann var í við aksturinn hafði hann verið sviptur ökurétti ævilangt með dómi frá því í janúar 2010.

Þá handtók lögreglan tvo ökumenn til viðbótar vegna gruns um ölvunarakstur í Keflavík. Annar þeirra reyndist vera verulega ölvaður og hinn undir áhrifum áfengis. Þeir voru færðir á lögreglustöð og sleppt að skýrslutökum loknum.

Veggjakrot á húsnæði hitaveitu

Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning þess efnis að þrír piltar hefðu verið að hamast við að spreyja á húsnæði hitaveitunnar við Unnardal. Piltarnir voru á bak og burt þegar lögregla kom á vettvang, en eftir stóð veggjakrot þeirra. Lögregla rannsakar málið.

Þjófar láta til sín taka

Lögreglunni á Suðurnesjum barst í fyrrakvöld tilkynning þess efnis að brotist hefði verið inn í bílskúr í Reykjanesbæ. Þaðan var stolið DVD-tæki, tveimur hafnarboltakylfum og skartgripum. Þá var búið að eyðileggja sjónvarp, sem var í geymslunni.

Í gær var svo tilkynnt um olíuþjófnað af vöruflutningabifreið. Þegar setja átti hana í gang í gærmorgun var hún nánast olíulaus. Talið er að eldsneyti að verðmæti um 50 þúsund krónur hafi verið stolið af henni.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á undanförnum dögum kært sjö ökumenn fyrir of hraðan akstur. Flest áttu brotin sér stað á Reykjanesbraut. Þá mældist einn ökumaður á 117 kílómetra hraða við Fitjar þar sem hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund. Annar ók meir en helmingi of hratt á Aðalgötu í Keflavík, því þar er hámarkshraði 30 kílómetrar á klukkustund, en bifreið hans mældist á 61 kílómetra hraða.

Loks klippti lögregla skráningarnúmer af tveimur bifreiðum, sem báðar voru óskoðaðar og ótryggðar.