16 Október 2020 09:51

Sameiginleg rafræn gátt vegna ofbeldis fyrir þolendur, gerendur og aðstandendur var formlega tekin í notkun í dag. Í henni felst að vef 112, 112.is, er breytt til að verða allsherjar upplýsingatorg um allt sem viðkemur ofbeldi, ásamt því að opnað verður á beint samtal við neyðarverði í netspjalli 112. Með sameiginlegri rafrænni gátt vegna ofbeldis er allt ferli sem miðar að aðstoð einfaldað, upplýsingar um hvað ofbeldi er gerðar aðgengilegar og boðið upp á úrræði til lausnar.

Hin rafræna gátt 112 um ofbeldi er ein af megintillögum aðgerðateymis gegn ofbeldi sem Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra skipuðu til að stýra og samræma aðgerðir gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Teyminu er stýrt af Sigríði Björk Guðjónsdóttur, ríkislögreglustjóra og Eygló Harðardóttur. Jafnframt hefur Neyðarlínunni verið falið að skipuleggja vitundarvakningu um ofbeldi í samfélaginu þar sem fólk er hvatt til að segja frá ofbeldi og leita aðstoðar hjá 112.