4 Desember 2007 12:00
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var á dögunum gefið málverk af Agnari Kofoed-Hansen en hann var lögreglustjóri í Reykjavík árin 1940-1947. Gefandi er ekkja Agnars, frú Björg Kofoed-Hansen, en málverkið er eftir Ásgeir Bjarnþórsson sem málaði myndina árið 1948. Af þessu tilefni þáðu frú Björg og fjölskylda hennar veitingar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu og þar voru rifjaðir upp gamlir tímar.
Þótt starf lögreglustjóra hafi um margt breyst á undanförnum áratugum er það erilsamt sem fyrr. Verkefni lögreglu í Reykjavík fyrir miðja síðustu öld voru þó auðvitað sumpart af dálítið öðrum toga en nú þekkist. Því má heldur ekki gleyma að þá var Ísland hernumið og ekki auðveldaði það störf lögreglunnar.
Agnar Kofoed-Hansen varð flugvallastjóri ríkisins þegar hann hætti sem lögreglustjóri og gegndi því starfi til 1951. Hann tók þá við sem flugmálastjóri og varð ekki síst þekktur fyrir frumkvöðlastarf sitt á því sviði. Agnar Kofoed-Hansen lést árið 1982.
Á meðfylgjandi mynd eru Stefán Eiríksson lögreglustjóri og frú Björg Kofoed-Hansen við málverkið af Agnari Kofoed-Hansen en það prýðir nú húsakynni yfirstjórnar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.