21 Ágúst 2006 12:00

Nú þegar grunnskólarnir í borginni eru að hefja störf á nýjan leik vill lögreglan í Reykjavík brýna það fyrir foreldrum að þeir ræði við börnin sín um hætturnar í umferðinni. Þetta á ekki síst við um þau yngstu en tæplega 1600 börn setjast nú á skólabekk í fyrsta sinn. Hér fylgja nokkur góð ráð sem allir krakkar eiga að fara eftir og auðvitað hinir fullorðnu líka. Þeir eru  jú fyrirmyndirnar.   Fyrst ber að nefna að ávallt skal ganga á gangstétt fjærst akbraut. Einnig að nota alltaf gangbrautir þar sem þær eru. Það þarf líka að muna að stoppa, hlusta og líta vel til beggja hliða áður en gengið er yfir akbraut. Mikilvægt  er að ganga alltaf beint yfir götu en ekki hlaupa.   Foreldrar ættu líka að minna börnin sín á mikilvægi þess að leika sér á öruggum svæðum, fjarri bílaumferð. Svo á að hjóla á gangstéttum, göngu-/hjólreiðastígum og stéttum heima við hús en ekki á akbrautum. Svo eiga auðvitað allir að vera með hjálm þegar hjólað er og farið á línuskauta eða hlaupahjól. Og þegar ferðast er í bíl eiga líka allir að vera með beltin spennt. Ykkur mun farnast vel í umferðinni ef þið fylgið þessum ráðum.

Þessir krakkar kunna greinilega að passa sig í umferðinni.