15 Október 2009 12:00

Tíðni brota á Álftanesi er með því lægsta sem þekkist á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram á  fundi sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með lykilfólki á Álftanesi sem haldinn var í Álftanesskóla í gær. Tuttugu og fimm manns sátu fundinn sem var hinn líflegasti en fundarmenn höfðu um margt að spyrja. Eins og oft áður voru umferðarmálin ofarlega á baugi en fundarmenn höfðu áhyggjur af hraðakstri við grunnskólann. Nýjustu hraðamælingar lögreglunnar staðfesta þessa tilfinningu íbúanna en rætt var um leiðir til að bæta ástandið. M.a. hvort fjölga þurfi þrengingum og hraðahindrunum. Nágrannavarsla var einnig til umræðu en lögreglan er ávallt tilbúin til aðstoðar og ráðlegginga þegar henni er komið á fót. Frumkvæði í þeim efnum verður þó alltaf að koma frá íbúunum sjálfum.

Ólafur G. Emilsson aðstoðaryfirlögregluþjónn fór yfir helstu breytingar á lögreglustöðinni á Flatahrauni í Hafnarfirði og starfseminni þar en þaðan er sinnt löggæslu á Álftanesi. Hann fór einnig yfir helstu niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Þar kemur m.a. fram að íbúar á Álftanesi eru frekar ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bæjarfélaginu en nálægt 80% voru þeirrar skoðunar. Könnunin var birt á lögregluvefnum í sumar en má nálgast með því að smella hér.

Þessu næst fór Margeir Sveinsson lögreglufulltrúi yfir þróun brota á Álftanesi undanfarin ár. Eins og fram hefur komið er tíðni brota þar með því lægsta sem þekkist í umdæminu. Engu að síður hefur brotum fjölgað í sveitarfélaginu og munar þar mestu aukinn fjöldi auðgunarbrota. Þar vegur þyngst að innbrot eru fleiri á síðasta ári í samanburði við árin á undan. Á móti kemur fækkun ofbeldis- og fíkniefnabrota. Sömuleiðis hefur dregið úr eignaspjöllum. Að öllu samanlögðu er staða mála á Álftanesi bara nokkuð góð en tölfræðina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn fór yfir umferðarmálin en um þau spunnust nokkrar umræður, eins og áður sagði. Lokaorðin átti hinsvegar Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri en hann sagði fundarmönnum m.a. frá nýlegri könnun MMR sem kannaði traust almennings til helstu stofnana samfélagsins. Í könnuninni sögðust 80,9% aðspurðra bera mikið traust til lögreglunnar og fékk hún bestu útkomuna af öllum. Hörður sagði þetta hvatningu til lögreglunnar um að halda áfram á sömu braut.

Sigríður Rósa Magnúsdóttir, Skarphéðinn Jónsson og Kristján Sveinbjörnsson.

Hjördís Ólafsdóttir, Guðrún Hrefna Sverrisdóttir og Skarphéðinn Jónsson.

Bjarni S. Einarsson og Margeir Sveinsson.