30 Júní 2022 12:46

Það er góð skemmtun þegar við komum öll heil heim. 112 aðstoðar í neyð!

Sumarið er hafið með sínum björtu nóttum, ilminum af nýslegnu grasi og ævintýralegum ferðalögum. Með átakinu Góða skemmtun vill Neyðarlínan hvetja almenning til að vera vakandi fyrir umhverfi sínu og hringja í 112 ef einhver þarf á aðstoð að halda.

Með því að vera vakandi fyrir umhverfi okkar getum við öll stuðlað að góðri skemmtun þar sem við getum öll upplifað okkur örugg og komist heil heim. Það gefur auga leið að góð skemmtun er skemmtun án alls ofbeldis.

Góða skemmtun er sameiginlegt átak Neyðarlínunnar, dómsmálaráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra í samvinnu við lögregluna á landsvísu. Með átakinu viljum við minna almenning á að ætíð er hægt að leita aðstoðar hjá Neyðarlínunni 112  og hvetja um leið til samstöðu gegn ofbeldi á bæjar- og útihátíðum landsins í sumar.

Átakið Góða skemmtun er annar áfangi vitundarvakningar dómsmálaráðuneytisins, ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar og hinna ýmsu samstarfsaðila gegn kynferðisofbeldi. Í fyrsta áfanga voru skilaboðin að vera vakandi gegn ofbeldi og að varpa fram spurningunni: „Er allt í góðu?“ ef áhyggjur vöknuðu og leita til 112 ef svo væri ekki.  Heildarmarkmið stjórnvalda með vitundarvakningunni er að fleiri tilkynni kynferðisbrot sé brotið á þeim, samhliða því að fækka brotum, en kannanir benda til þess að lítill hluti brota sé tilkynntur til lögreglu.

Vert er að muna að Neyðarlínan 112 er alltaf til taks og til aðstoðar í neyð.

Fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins, Neyðarlínunnar og embættis ríkislögreglustjóra,
góða skemmtun!

 

———————

 

Nánari upplýsingar veita Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra á netfanginu ghg03@logreglan.is eða Guðfinnur Sigurvinsson, ráðgjafi dómsmálaráðherra gegn kynbundnu ofbeldi, á netfanginu gudfinnur.sigurvinsson@althingi.is eða í s: 669-9330.