5 Nóvember 2013 12:00

Miklu máli skiptir að hjólbarðar ökutækja séu alltaf í lagi en þeir mynda einu snertingu bílsins við veginn. Bíleigendur verða því að fylgjast með sliti á hjólbörðum bíla sinna enda minnkar veggrip þeirra við slit og þar með öryggið. Minnt er á að dýpt mynsturraufa hjólbarða fólksbifreiða, jeppar meðtaldir, má ekki vera minni en 1,6 mm. Sömuleiðis er mikilvægt að athuga hvort loftþrýstingur sé réttur miðað við stærð hjólbarðanna. Ökumenn eru hvattir til að hafa þessi atriði í lagi en með því stuðla þeir að auknu öryggi í umferðinni. Frekari upplýsingar má finna í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, 16. gr.

Samhliða þessu, í ljósi þess að veturinn er að ganga í garð, er líka minnt á mikilvægi þess að hreinsa hrím og/eða snjó af bílrúðum og ljósum þegar svo ber undir. Sé það ekki gert setja hinir sömu sjálfa sig og aðra vegfarendur í hættu með takmörkuðu útsýni. Lögreglan hefur haft afskipti af mörgum ökumönnum fyrir áðurnefndar sakir í gegnum árin, m.a. við bæði leik- og grunnskóla en þar má lítið út af bregða í skammdeginu. Af þeim sökum biður lögreglan ökumenn að skafa alltaf af bílrúðum og ljósum en með þessum einföldu öryggisatriðum má koma í veg fyrir óhöpp og slys. Að síðustu skal það nefnt að ökutæki skulu búin til vetraraksturs þegar sá árstími er tekinn við.

Mynd: Samgöngustofa