24 Febrúar 2012 12:00

Lögreglan hefur átt marga góðkunningja í gegnum árin en um góðkunningja lögreglunnar segir þetta í íslenskri orðabók: menn sem lögregla þarf tíðum að hafa afskipti af, smáglæpamenn, drykkjumenn o.þ.h. Fréttir af góðkunningjum lögreglunnar hafa oft ratað í blöðin og hér rifjum við upp eina frá árinu 1926 en þá mátti lesa eftirfarandi í Morgunblaðinu:

„Manni þeim, sem braust inn í Kaupfjelag Reykvíkinga fyrir stuttu, hefir nú lögreglan náð, og sett hann í gæsluvarðhald. Er hann góðkunningi (!) lögreglunnar frá fornu fari, hefir setið alllengi í fangahúsinu, en var náðaður, þegar konungur kom í sumar. Hann heitir Júlíus Jónsson. Sömu nóttina og hann braust inn í Kaupfjelagið, ljek hann sama leikinn á Skjaldbreið. Mölvaði þar glugga á bakhliðinni og smaug inn. En við hávaðann, sem varð, er hann braut gluggann, vaknaði fólk, og kom á vettvang. Komst hann þó á brott, og mun þá hafa farið beina leið í Kaupfjelagið, því blóðdrefjar voru þar á ýmsum hlutum, en hann hafði eitthvað skeinst á höndum við Skjaldbreiðargluggann. Menn þeir, er rákust á hann í Kaupfjelaginu, þekkja hann glögt aftur, en hann neitar öllu. Kvað það vera vani hans, þó órækar sannanir sjeu fyrir hendi.”

Myndir: Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga

Árið 1926 var lögreglustöðin til húsa að Lækjargötu 10b.

Lögregluþjónar í Reykjavík á þriðja áratug síðustu aldar.