9 September 2011 12:00

Göngum í Skólann var sett formlega í á miðvikudagsmorgun í Síðuskóla á Akureyri. Við setninguna töluðu Ólafur B. Thoroddsen skólastjóri Síðuskóla, Viðar Sigurjónsson sviðsstjóri fræðslusviðs ÍSÍ, Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar sem setti átakið formlega og Sindri Snær Konráðsson nemandi í 10 bekk sem talaði fyrir hönd nemenda. Að setningarathöfninni lokinni gengu allir nemendur skólans um nágrennið með hvatningarspjöld um ágæti þess að ganga í skólann.

Í ár tekur Ísland þátt í fimmta skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka stöðugt farið vaxandi. Hér á landi hafa aldrei fleiri skólar skráð sig til leiks, en nú þegar hafa 57 skólar skráð sig. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 5. október. Göngum í skólann verkefnið fer fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 5. október.

Meginmarkmið Göngum í skólann eru að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða fara á annan virkan hátt til og frá skóla. Um leið er ætlunin að: Hvetja til aukinnar hreyfingar með því að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar.

Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Landlæknisembættið, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umferðastofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Heimasíða verkefnisins er  www.gongumiskolann.is.

Myndir teknar við setningu verkefnisins.