6 September 2017 17:23

Verkefnið Göngum í skólann (www.iwalktoschool.org ) var sett í Víðistaðaskóla í Hafnafirði í blíðviðrinu í morgun, og er þetta í ellefta sinn sem verkefninu er hleypt af stokkunum. Þeir sem voru viðstaddir auk nemenda og kennara voru meðal annars heilbrigðisráðherra, forseti ÍSÍ, formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar og lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.

Skólar á öllu landinu geta skráð sig til þátttöku á heimasíðu verkefnisins www.gongumiskolann.is

Að verkefninu standa Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Embætti ríkislögreglustjóra, Samgöngustofa, Embætti landlæknis, Heimili og skóli, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Slysavarnarfélagið Landsbjörg.