13 Nóvember 2012 12:00

Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram í gær. Þá var röðin komin að Álftnesingum, en sveitarfélagið hefur helst verið í fréttum undanfarið vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og nú sameiningar við Garðabæ. Hvað sem því öllu líður að þá er gott að búa á Álftanesi og fyrir því eru ýmsar ástæður. Ein er sú að í þessu góða samfélagi er mjög lítið um afbrot. Frá árinu 2007 til 2011 fækkaði ofbeldisbrotum um 50% og eignaspjöllum um 81%. Innbrotum fækkaði reyndar ekki, en þar er engu að síður um mjög lágar tölur að ræða.

Farið var ítarlega yfir þróun mála á svæðinu, en Álftnesingar mega að mörgu leyti vel við una. Umferðarslys eru fá á Álftanesi og hefur svo verið undanfarin ár. Nokkuð var rætt um Álftanesveg og slys sem þar hafa orðið, en þau eru fá eins og áður sagði. Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr netkönnun, sem framkvæmd var í sumar, en yfirskrift hennar er Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Tæplega 80% íbúa á Álftanesi telja lögregluna skila góðu starfi á þeirra svæði, en íbúarnir segjast jafnframt öruggir einir á gangi í sínu hverfi eftir myrkur. Þess má geta að fundurinn, sem var haldinn í Álftanesskóla, var sendur út í beinni útsendingu á netinu. Tölfræðina frá fundinum í gær má  nálgast með því að smella hér.

Frá Álftanesi.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is