22 Október 2013 12:00
Það var gott hljóðið í fundarmönnum þegar lögreglan hitti lykilfólk á Seltjarnarnesi að máli í gær. Líkt og á fyrri hverfa- og svæðafundum var farið yfir stöðu mála í sveitarfélaginu, en í þeim efnum geta íbúar á Seltjarnarnesi að mörgu leyti vel við unað. Brot í sveitarfélaginu eru hlutfallslega fá og gildir þá einu hvar borið er niður. Sérstaklega má nefna að lítið eða ekkert virðist vera um ofbeldisbrot á Seltjarnarnesi og er það auðvitað gleðiefni. Um umferðina gildir hið sama, en Seltirningar virðast almennt vera til fyrirmyndar í umferðinni.
Ýmislegt fleira var rætt á fundinum, en á honum voru jafnframt kynntar niðurstöður úr könnun, sem lögreglan lét framkvæma í vor. Þar kom fram að íbúar á Seltjarnarnesi, allir sem einn, eru ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Meirihluti þeirra telur jafnframt lögreglu vera aðgengilega, en finnst þó vanta lögreglustöð á Seltjarnarnesi. Þess má geta að fundurinn í gær var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.