29 Október 2013 12:00

Árleg fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram í gær, en þá var röðin komin að Breiðhyltingum. Mætingin var sæmileg, en fundurinn var haldinn í Gerðubergi að þessu sinni. Farið var yfir stöðu mála, en síðustu ár hefur jákvæð þróun átt sér stað í Breiðholti líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Brotum í hverfinu hefur fækkað og má nefna innbrot á heimili í því sambandi. Staða mála í Breiðholti er því að mörgu leyti góð og þar er að gott að búa, eins og Breiðhyltingar vita auðvitað manna best.

Enda var hljóðið í fundarmönnum almennt gott og jákvæðni í fyrirrúmi. Þeir höfðu samt vissulega ýmislegt um að tala, en m.a. var rætt um nágrannavörslu, málefni barna og unglinga og fíkniefnamál. Þetta er raunar svipað umræðuefni og á mörgum öðrum fundanna í haust og greinilegt að mál sem þessi standa fólki nærri. Á fundinum í Gerðubergi voru enn fremur kynntar niðurstöður úr könnun, sem lögreglan lét framkvæma í vor og kom þar fram margt áhugavert. Þess má geta að fundurinn í gær var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.