16 Nóvember 2009 12:00

Þrjátíu og fimm manna lögreglulið sinnir löggæslustörfum í Garðabæ, Hafnarfirði og á Álftanesi en starfsstöð lögreglunnar á svæðinu er á Flatahrauni 11 í Hafnarfirði. Tuttugu og fimm þeirra eru á sólarhringsvöktum við almenna löggæslu, sjö sinna rannsóknum og þrír eru stjórnendur. Lögreglustöð 2 nýtur jafnframt aðstoðar annarra deilda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þegar svo ber undir og þá er umferðardeild embættisins sýnileg í Garðabæ sem og annars staðar. Þetta fyrirkomulag sem nú er viðhaft á svæðinu lofar góðu að mati lögreglunnar og gerir kleift að auka sýnilega löggæslu en það er eitt af helstu markmiðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta og margt fleira var kynnt til sögunnar á fundi lögreglunnar og lykilfólks í Garðabæ sem haldinn var í Garðabergi á fimmtudag. Það var Ólafur G. Emilsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sem fór yfir helstu breytingar sem hafa átt sér stað í löggæslumálum á svæðinu en þess má geta að Ólafur er jafnframt stöðvarstjóri á lögreglustöð 2.

Eins og allir vita er gott að búa í Garðabæ og það kemur ekki síst í ljós þegar rýnt er í tölfræðina. Brot þar eru færri en víðast hvar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu og iðulega undir meðaltali í samanburði við önnur svæði. Undantekning í þeim efnum eru umferðarslys en væntanlega helgast það af þeirri staðreynd að bæði Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut liggja í gegnum Garðabæ. Því fer þó fjarri að hægt sé að tala um ófremdarástand hvað það varðar enda hefur dregið úr umferðarslysum í Garðabæ sem og á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það var Sævar Örn Guðmundsson aðalvarðstjóri sem fór yfir tölfræðina en hana má nálgast í heild sinni með því að smella hér.

Um tuttugu manns sátu fundinn í Garðabergi sem var hinn líflegasti. Á fundinum voru jafnframt kynntar niðurstöður úr könnun um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Könnunina má nálgast í heild sinni með því að smella hér en í henni kemur m.a. fram að 86% Garðbæinga telja að lögreglan skili góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Þrátt fyrir þetta virðist eitthvað vanta upp á sýnileika hjá lögreglu því 56% íbúa Garðabæjar sögðu í sömu könnun að þeir sæju lögregluna einu sinni í mánuði eða sjaldnar. Þetta var rætt nokkuð á fundinum en auðvitað vill lögreglan gera betur í þessum efnum. Veggjakrot, nágrannavarsla, eftirlitsmyndavélar og ótti íbúa við innbrot var einnig til umræðu, svo fátt eitt sé nefnt.