31 Október 2008 12:00

Stundum hefur verið sagt að gott sé að búa í Kópavogi og það má auðvitað til sanns vegar færa. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tók undir þessi orð þegar farið var yfir stöðu og þróun mála í Kópavogi á fundi sem lögreglan átti nýverið með fulltrúum úr stjórnsýslu bæjarins. Fundur sem þessi er haldinn árlega en hann sátu nú um tuttugu manns. Af helstu niðurstöðum sem fulltrúar lögreglunnar kynntu fundarmönnum má nefna að tilkynningum um eignaspjöll fækkaði árið 2007 í samanburði við árið á undan. Fíkniefnabrotum fækkaði einnig á sama tímabili sem og nytjastuldi. Auðgunarbrotum fjölgaði hinsvegar lítilega á umræddu tímabili og þar vega þungt svokölluð hnuplmál en langflest þeirra eiga sér stað í Smáralind. Ofbeldisbrotum fjölgaði líka á milli þessara ára úr 54 í 72. Líflegar umræður sköpuðust á fundinum en rætt var bæði um mál sem snerta Kópavogsbúa beint og sem snúa að löggæslunni almennt. T.d. hlutverk sérsveitarinnar og hvort lögreglan skuli taka upp rafbyssur eður ei.

Á fundinum, sem var haldinn á miðvikudag, var einnig kynnt niðurstaða um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. 90% Kópavogsbúa eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila ágætu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í bænum. Tæplega 30% þessara sömu íbúa sögðu hinsvegar að lögreglan væri ekki nógu aðgengileg þegar þeir þyrftu að fá upplýsingar, aðstoð eða fræðslu og því ljóst að lögreglan þarf að taka sig á í þeim efnum. Í sömu könnun kom einnig fram að Kópavogsbúar telja sig yfirleitt mjög eða frekar örugga þegar þeir eru á ferð í sínu byggðarlagi eftir að myrkur er skollið á en um 90% sögðu svo vera.

Selma Haraldsdóttir, Gylfi Sigurðsson og Bjarni Guðmundsson.

Sigurður Björnsson og Þór Jónsson.

Ómar Stefánsson og Stefán Eiríksson.