20 Apríl 2007 12:00

Með hækkandi sól er vert að benda á að foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum til a.m.k. 18 ára aldurs. Sumarið er oft sá tími þegar hve mest lausung er á krökkunum. Þá er enginn skóli, félagsmiðstöðvarnar eru lokaðar og tími krakkanna því minna skipulagður. Vorið, prófalok, hvítasunnan, fyrsta útborgunin, 17. júní, verslunarmannahelgin og Menningarnótt eru tímapunktar sem foreldrar þurfa að vera sérstaklega vakandi fyrir. Rannsóknir hafa sýnt fram á að stór hópur ungmenna stígur sín fyrstu skref út í neyslu í kringum atburði sem þessa og því mikilvægt að foreldrar séu vakandi fyrir því að senda börnin sín ekki eftirlitslaus á útihátíðir og fylgist vel með því sem krakkarnir eru að gera. Rannsóknir sýna að sumarið milli loka 9. bekkjar og 10. bekkjar er sá tími sem stór hluti ungmenna stígur sín fyrstu skref í áfengis- og vímunefnaneyslu. Slíkt hið sama á við um enn stærri hóp ungmenna milli loka 10. bekkjar og fyrsta árs í framhaldsskóla.

Foreldrar eru hvattir til að standa saman að því að útivistarreglur séu virtar. Þá er því beint til foreldra að kaupa hvorki áfengi né tóbak fyrir börnin sín. Sé það hinsvegar gert er um leið verið að samþykkja að börnin reyki og neyti áfengis. Að lokum eru foreldrar hvattir til að verja tíma með börnunum sínum, byggja upp góð tengsl við þau en veita þeim jafnframt gott aðhald. Það er besta forvörnin.

Smellið hér til að lesa frekar um samband ungmenna og foreldra.

Pistillinn hér að ofan kemur frá Grósku, stýrihópi í Grafarvogi þar sem forvarnir eru til umfjöllunar. Efnið á erindi til allra og því er pistillinn birtur hér. Þess má jafnframt geta að hverfislögreglumaður á sæti í stýrihópnum.