25 Nóvember 2011 12:00

Það voru fastir liðir eins og venjulega þegar fundað var með lykilfólki á Seltjarnarnesi í fyrradag. Með því er átt við að staða mála er mjög góð þegar afbrot eru annars vegar og hefur svo verið undanfarin ár. T.d. má nefna að lítið er um innbrot á heimili í sveitarfélaginu og raunar hefur innbrotum almennt fækkað á Seltjarnarnesi. Ef talin eru öll innbrot í bænum, á heimili og í fyrirtæki og ökutæki o.s.frv., að þá voru þau mun færri á fyrstu tíu mánuðum ársins í samanburði við sömu mánuði áranna 2008-2010.

Þrátt fyrir jákvæða þróun í flestum efnum voru fundarmenn sammála um að ekki mætti sofna á verðinum. Það á ekki síst við í umferðarmálum en Seltirningar hafa stundum viðrað áhyggjur sínar af hraðakstri á þessum árlegu fundum. Sé hins vegar litið á tölur um umferðarslys verður ekki annað séð en að bæjarbúar fari varlega í umferðinni og vonandi halda þeir því áfram. Í þessu samhengi má jafnframt geta þess að í ár hafa engin slys orðið á fólki í umferðinni á Seltjarnarnesi, samkvæmt bestu vitund lögreglunnar. Það eru sannarlega góðar fréttir. Tölfræðina frá fundinum má annars nálgast með því að smellla hér.

Seltirningar eru í góðum málum.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is