15 Október 2008 12:00

Um tuttugu manns sóttu fund sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt í Álftanesskóla á mánudag. Um var að ræða árlegan fund sem lykilfólki í sveitarfélaginu er boðið til en á honum var farið ítarlega yfir stöðu mála á Álftanesi. Stefán Eiríksson lögreglustjóri hafði orðið í upphafi og sagði m.a. að á Álftanesi væri gott samfélag þar sem allir legðust á eitt við að gera góðan bæ enn betri. Helgi Gunnarsson hverfislögreglumaður fór því næst yfir þróun mála en bæði innbrotum og fíkniefnabrotum fækkaði á Álftanesi á síðasta ári. Hinsvegar fjölgaði til muna tilkynningum um eignaspjöll. Umferðarmál voru einnig til umfjöllunar á fundinum en Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn kynnti helstu niðurstöður í þeim málaflokki.

Á fundinum var einnig kynnt niðurstaða könnunar um viðhorf til lögreglu og sýnileika hennar. Álftnesingar eru almennt ánægðir með störf lögreglunnar og telja hana skila góðu starfi þegar kemur að því að stemma stigu við afbrotum í sveitarfélaginu. Í sömu könnun kom jafnframt fram að íbúarnir telja innbrot og umferðarlagabrot mestu vandamálin. Næstum helmingur, eða 47,9%,  nefndi innbrot og fjórðungur, eða 25%, taldi umferðarlagabrot vera mesta vandamálið í sveitarfélaginu. Nokkrir, eða 4,2%, nefndu síðan eignaspjöll.

Fundarmenn höfðu margs að spyrja.

Helgi Gunnarsson fór yfir þróun mála.