15 Nóvember 2010 12:00

Að venju var vel mætt þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði lykilfólk í Breiðholti til fundar við sig í þjónustumiðstöðinni í Mjódd síðastliðin föstudag. Breiðhyltingar hafa ávallt verið mjög áhugasamir um þessa árlegu fundi með fulltrúum lögreglunnar og nú, líkt sem endranær, lá þeim ýmislegt á hjarta. Í fyrra höfðu þeir nokkrar efasemdir um breytingar á skipulagi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en Stefán Eiríksson lögreglustjóri fullvissaði viðstadda um að þær hefðu bæði verið til bóta og gengið vel. Áréttað var að lögreglustöðin í Álfabakka 12 er enn opin hluta úr degi þótt nokkrir starfsmenn hafi flutti starfsaðstöðu sína yfir á Dalveg 18 í Kópavogi. Þar er nú aðsetur lögreglustöðvar 3 sem sinnir verkefnum bæði í Breiðholti og Kópavogi.

Nokkur umræða skapaðist líka um forvarnamál en í þeim efnum þarf stöðugt að vera á vel á verði, sérstaklega þegar fíkniefni eru annars vegar. Fundarmenn töldu sýnileika lögreglu skipta þar miklu máli og tiltóku sérstaklega heimsókn lögreglunnar í fjölbrautaskólann í hverfinu og sögðu hana hafa haft ótvírætt forvarnagildi. Minnt var á gott samstarf beggja aðila á þessum vettvangi og mikilvægi þess að það haldi áfram. Raunar vildu fundarmenn efla samstarfið við lögregluna á fleiri sviðum og það er auðvitað af hinu góða.

Á fundinum var einnig farið yfir þróun brota í Breiðholti undanfarin ár en um þá kynningu sá Heimir Ríkarðsson aðalvarðstjóri. Í máli hans kom fram margt jákvætt og má t.d. nefna þá ánægulegu staðreynd að innbrotum á heimili hefur fækkað verulega í hverfinu miðað við árið í fyrra, eða frá ársbyrjun til októberloka. Sem betur fer er einnig svipaða þróun að sjá annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en um þetta var fjallað nýverið á lögregluvefnum, líkt og sjá má hér. Tölfræði frá Breiðholtsfundinum sl. föstudag má hinsvegar nálgast hér.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is

Myndir: Þjónustumiðstöð Breiðholts