16 Október 2009 12:00

-Vísbendingar um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi

Sterkar vísbendingar eru um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi. Greiningardeild ríkislögreglustjóra býr yfir staðfestum upplýsingum þess efnis að götuvændi sé stundað í Reykjavík.

Í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur á undanförnum tveimur árum eða svo ítrekað verið fjallað um vaxandi umsvif skipulagðra glæpahópa á Íslandi. Í skýrslum þessum hefur verið vakin athygli á því að innlendir og erlendir glæpahópar láti í vaxandi mæli til sín taka hér á landi. Jafnframt hefur verið vakin athygli á auknu samstarfi slíkra hópa á vettvangi skipulagðrar glæpastarfsemi.

Ríkislögreglustjóri telur ástæðu til að ítreka þessi varnaðarorð.

Götuvændi

Fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess að vændi færist í vöxt í höfuðborginni.

Einkum er þar um að ræða erlendar konur sem í mörgum tilvikum, hið minnsta, eru fluttar hingað til lands gagngert í þessum tilgangi. Starfsemi sem þessi er oftar en ekki þaulskipulögð og krefst samvinnu hópa og einstaklinga. Oft felur hún í sér nauðung, hótanir, ofbeldi  og mansal. Aukið vændi,  auk skipulagðra innbrota og þjófnaða, er því ein gleggsta birtingarmynd þess að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt á Íslandi.

Greiningardeild býr yfir óvefengjanlegum upplýsingum þess efnis að götuvændi sé iðkað í Reykjavík. Tekið skal fram að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um umfang þessarar starfsemi. Vísbendingar eru þó um að hún sé takmörkuð.

Í höfuðborgum nágrannalandanna hafa erlendar vændiskonur, sem leita viðskiptavina á götunni,valdið margvíslegum vanda á undanliðnum árum. Þar er um að ræða þaulskipulagða glæpastarfsemi sem erlendir glæpaflokkar halda einkum uppi, oft með aðstoð heimamanna.

Greiningardeild varar við því að svipað ástand kunni að skapast í Reykjavík verði ekki brugðist við þróun þessari á upphafsstigum hennar.