18 Nóvember 2011 12:00
Það var létt yfir fólkinu sem mætti til fundar við lögregluna í húsakynnum Þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness á Gylfaflöt í Reykjavík í fyrradag. Tilefnið var að fara yfir þróun brota í þessum hverfum borgarinnar undanfarin ár. Samskonar fundir hafa þegar verið haldnir í Kópavogi og Kjósarhreppi og framundan er áframhaldandi fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með viðkomu í fleiri hverfum borgarinnar sem og öllum sveitarfélögum í umdæminu. Fundurinn á Gylfaflöt var mjög jákvæður og raunar skemmtilegur en svo er nú ekki alltaf þegar löggæslumál eru til umræðu.
Gott viðhorf fundarmanna má kannski skrifa á þá staðreynd að í báðum þessum hverfum borgarinnar er margt sem horfir til betri vegar en tölfræði frá kynningu lögreglunnar má nálgast með því að smella hér. Þrátt fyrir ágæta stöðu mála er þó enn hægt að gera betur og þar skiptir framlag íbúanna sjálfra ekki síst miklu máli. Fólk í Grafarvogi og á Kjalarnesi er mjög meðvitað um nágrannavörslu en upplýsingar frá íbúum um grunsamlegar mannaferðir verða oft til þess að mál eru upplýst. Á máli fundarmanna mátti heyra vilja þeirra til að efla nágrannavörslu enn frekar og er það vel.
Foldahverfi í Grafarvogi.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is