8 Nóvember 2012 12:00

Málefni Grafarvogs og Kjalarness voru til umræðu á fundi í Miðgarði í gær. Líkt og á öðrum hverfa- og svæðafundum fóru fulltrúar lögreglunnar yfir stöðu og þróun brota, en almennt er ágæt staða mála á báðum þessum stöðum. Bæði innbrotum og ofbeldisbrotum hefur fækkað í Grafarvogi frá árinu 2007 og þá hefur dregið stórlega úr eignaspjöllum. Innbrotum og eignaspjöllum hefur hins vegar fjölgað aðeins á Kjalarnesi, en engu að síður er um tiltölulega fá brot að ræða á Kjalarnesi. Slysum á báðum stöðum hefur aftur á móti fækkað talsvert frá árinu 2008.

Eftir kynningu lögreglunnar tóku við umræður en fundargestir höfðu um ýmislegt að ræða og margar gagnlegar ábendingar komu fram á fundinum. Þeir voru líka ánægðir með störf lögreglunnar og tiltóku sérstaklega viðbragðstíma hennar þegar kallað var eftir aðstoð. Það þótti fulltrúum lögreglunnar gott að heyra en á fundinum voru jafnframt kynntar niðurstöður úr netkönnun, sem framkvæmd var í sumar, en yfirskrift hennar er Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Langflestir íbúa í Grafarvogi og á Kjalarnesi, eða 90% aðspurðra, telja lögregluna skila góðu starfi á þeirra svæði. Þess má að lokum geta að fundurinn í Miðgarði í gær var sendur út í beinni útsendingu á netinu. Það var gert í tilraunarskyni en lögreglan er að prófa sig áfram með ýmislegt sem snýr að miðlun upplýsinga og var útsendingin liður í því. Tölfræðina frá fundinum í gær má nálgast með því að smella hér.

Frá Grafarvogi.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is