23 Október 2013 12:00

Miðgarður í Grafarvogi var viðkomustaður lögreglunnar í gær þegar hin árlega fundaherferð hennar með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram. Þar voru málefni Grafarvogs og Kjalarness til umræðu, en Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, fór yfir stöðu mála og þróun brota í hverfunum. Staða mála í þeim báðum er ágæt og t.a.m. hefur þjófnuðum fækkað. Þá hefur gengið ágætlega að upplýsa innbrot í heimahús í Grafarvogi, en þar hafa m.a. stórtækir, erlendir þjófar komið við sögu.

Á Kjalarnesi, við Esjumela, var töluvert um innbrot í bíla en úr því hefur dregið stórlega. Því má ekki síst þakka árverkni borgaranna sem hafa enn fremur fylgt tilmælum lögreglu, en hún hefur ítrekað varað eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum. Ýmislegt var rætt á fundinum og má þar nefna fíkniefnamál, foreldrarölt og nágrannavörslu. Auk þessa voru kynntar niðurstöður úr könnun, sem lögreglan lét framkvæma í vor. Þess má geta að fundurinn í gær var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.