22 Október 2014 12:00

Árleg fundaherferð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hófst á mánudag. Að þessu sinni voru Grafarvogsbúar og Kjalnesingar fyrstir í röðinni, en fundað var á lögreglustöðinni í Grafarholti. Líkt og á fyrri fundum var farið yfir stöðu mála og þróun brota í hverfunum, en fjallað var sérstaklega um þjófnaði, innbrot, ofbeldisbrot og eignaspjöll, auk umferðarmála sem hafa gjarnan verið fyrirferðarmikil á hverfa- og svæðafundum. Tölfræðina frá fundinum má annars kynna sér með því að smella hér.

Þrátt fyrir að mæting á fundinn hafi verið í dræmara lagi, var hann hinn líflegasti og fundarmenn höfðu um margt að ræða. Málefni barna og unglinga voru þar langmest áberandi, en viðstaddir höfðu talsverðar áhyggjur í þeim efnum og nefndu sérstaklega fíkniefnaneyslu. Hinir sömu töldu að betur mætti gera í forvarnarmálum og að þar þyrftu allir að vinna saman. Margt fleira bar á góma á fundinum, en á honum voru jafnframt kynntar niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem lögreglan lét framkvæma fyrr á árinu.