19 Nóvember 2009 12:00
Þótt ástandið í Grafarvogi og á Kjalarnesi séu að mestu leyti mjög gott vilja íbúarnir gera enn betur. Þetta kom glögglega fram á sameiginlegum fundi sem lögreglan átti með fulltrúum hverfanna og haldinn var í þjónustumiðstöðinni í Langarima í gær. Lykilfólk úr Grafarvogi var reyndar í miklum meirihluta á fundinum en hann sátu um 25 manns. Fyrir bragðið fór því minna fyrir sjónarmiðum Kjalnesinga en þeir eru hvattir til að koma ábendingum sínum á framfæri við lögreglu ef einhverjar eru. Fundurinn var annars mjög vel heppnaður en afar mikilvægt er fyrir lögregluna að heyra skoðanir þeirra sem búa og starfa á tilteknum svæðum í umdæminu. Ábendingarnar í gær sneru flestar að Spönginni en sumir vilja meina að þar megi bæði sjá óheppilega hópamyndun unglinga sem og hraðakstur á ákveðnum árstíma. Í gögnum lögreglu er hinsvegar ekki að sjá nein teljandi vandræði vegna þessara mála í Spönginni og því mikilvægt að slíkum upplýsingum sé komið á framfæri. Lögreglan getur þá brugðist við ef þörf er á en hún hvetur borgarana til að koma upplýsingum á framfæri, hvort heldur er um ræða mál af þessu tagi eða öðru. Einhverjir fundarmanna höfðu á orði að þeir veigruðu sér við að hafa samband við lögregluna. Í því sambandi vill hún sérstaklega minna á að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna en einu sinni of sjaldan!
Málefni Egilshallarinnar komu einnig til tals en fundarmenn höfðu áhyggjur af aðkomu að þessu mikla íþróttamannvirki og nefndu sérstaklega að lýsingu á svæðinu var mjög ábótavant. Þeir sögðu slysahættu þessu samfara og er það vissulega réttmæt ábending. Rætt var um lokun lögreglustöðvarinnar í Grafarvogi en Stefán Eiríksson lögreglustjóri greindi frá því að það yrði ekki til þess að draga úr þjónustunni í hverfinu. Þvert á móti væri ætlun lögreglunnar að auka hana en breytingar hjá embættinu undanfarið miða allar að aukinni sýnilegri löggæslu á höfuðborgarsvæðinu, jafnt í Grafarvogi sem annars staðar.
Sem stendur eru tvær lögreglustöðvar sem heyra undir lögreglustöð 4. Þær eru staðsettar á Krókhálsi 5b í Árbæ og á Völuteigi 8 í Mosfellsbæ og þjóna íbúum í Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Frá Krókhálsi 5b er sinnt almennri löggæslu en lögreglumennirnir eru á sólarhringsvöktum og fara í útköll á svæðinu. Á Völuteigi 8 er rannsóknarsviðið en þar starfa átta rannsóknarlögreglumenn. Í framtíðinni er hinsvegar stefnt að því að byggja nýja lögreglustöð við Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Þegar af því verður mun starfsemin á Krókhálsi 5b og Völuteigi 8 flytjast þangað. Þess má geta að almennum fyrirspurnum og upplýsingum til lögreglu á þessu svæði er hægt að koma á framfæri í síma 444-1180 allan sólarhringinn og fyrirspurnum um rannsóknir mála í síma 444-1190 á skrifstofutíma. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber hinsvegar að hringja í 112.
Á fundinum var jafnframt farið yfir þróun brota í Grafarvogi og á Kjalarnesi undanfarin ár en það er megintilgangur fundar af þessu tagi sem og að heyra hljóðið í lykilfólkinu á hverjum stað. Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, fór yfir tölfræðina en hana má nálgast í heild sinni með því að smella hér. Árni sagði einnig frá könnun sem lögreglan lét gera í vor en í henni voru könnuð viðhorf íbúa höfuðborgarsvæðisins er snúa að reynslu þeirra af lögreglu, öryggi og afbrotum. Könnunina í heild sinni má nálgast með því að smella hér.