17 September 2005 12:00

Í dag um kl. 10:30 barst lögreglunni í Bolungarvík tilkynning um að grjóthnullungar hefðu fallið á veginn á Óshlíð í grennd við þann stað þar sem stór sprunga er efst í fjallsbrúninni á Óshyrnu. Nokkuð grjóthrun hefur verið þarna að undanförnu.

Stórir steinar höfðu fallið á veginn utan við varnarnetið yst á hlíðinni.

Er að var komið var grjót á veginum og eins voru holur í veginn eftir grjót sem hafði kastast áfram út fyrir veginn. Mildi má kalla að enginn varð fyrir grjóti en nokkur hundruð bifreiðar aka veginn dag hvern.

Lögregla brýnir fyrir vegfarendum að fara með gát á þessum slóðum.

Almannavarnanefnd Bolungaravíkur kemur saman strax eftir helgi til að ræða ástand mála.

Lögreglan í Bolungarvík