11 Janúar 2005 12:00

Þann 5. janúar s.l. hóf 31 nýnemi nám á fyrstu önn grunndeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur rúmlega 4 mánuði og í maí fara nemendurnir í starfsþjálfun hjá lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu.

Af þessum nýnemum hafa 20 starfað sem afleysingamenn í lögreglunni, allt frá þremur mánuðum til tæplega fjögurra ára.

22 af nýnemunum hafa lokið stúdentsprófi og 8 þeirra eru með háskólapróf. Í hópnum eru m.a. húsasmiður, lögfræðingur, afbrotafræðingur, stjórnmálafræðingur, kennarar, íþróttakennari, geðhjúkrunarfræðingur, viðskiptafræðingur, afgreiðslumaður, verkfræðingur, sjómenn, atvinnukafari, vélvirki, tamningamaður og matreiðslumaður.

Menntun þeirra sem hefja nám við Lögregluskólann er stöðugt að aukast og undanfarin tvö ár hefur meðalaldur þeirra einnig hækkað nokkuð. Að þessu sinni er meðalaldur nýnema 28,61 ár.

Af áhugamálum nýnemanna má nefna sem dæmi að í hópi þeirra er Norðurlandameistari í júdó, hestamenn, fallhlífastökkvari og tónlistarmenn. Í hópnum eru nokkrir sem hafa gert víðreist um heiminn og t.d. hefur einn þeirra starfað sem lífvörður í Hong Kong og Mexíkó.

6 konur eru í hópi nýnemanna eða 19,35%.