19 Janúar 2007 12:00

Þann 16. janúar s.l. hófu 48 nýnemar nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins. Námið á önninni tekur fjóra mánuði og í maí fara nemendurnir í átta mánaða starfsþjálfun hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum. Að starfsþjálfun lokinni, í janúar 2008, hefst síðan þriðja önnin og henni lýkur með útskrift í apríllok 2008.

Af þessum nýnemum hefur 41 starfað sem afleysingamaður í lögreglunni, allt frá tveimur mánuðum til fimm ára. Að þessu sinni er meðalaldur nýnema 26,46 ár, sem er tæplega ári hærri meðalaldur en hjá nemendahópi síðasta árs. 12 konur eru í hópi nýnemanna eða 25%.

24 af nýnemunum hafa lokið stúdentsprófi, 7 þeirra hafa lokið háskólaprófi og 3 til viðbótar hafa stundað háskólanám. Starfsreynsla nýnemanna er margvísleg en í hópnum eru m.a. húsasmiður, tækniteiknari, sjómaður, kennari, skipstjóri og kjólasaumari.