16 Maí 2008 12:00

Í dag lauk grunnnámskeiði fyrir hundaþjálfara og fíkniefnaleitarhunda. Lögregluskóli ríkisins hélt námskeiðið í samvinnu við embætti Ríkislögreglustjóra og tollgæsluna á Suðurnesjum. Aðalleiðbeinandi á námskeiðinu var Steinar Gunnarsson, lögreglumaður, honum til aðstoðar var Esther Pálmadóttir, tollvörður en einnig kom að kennslu Rolf Von Krogh, sem er einn af helstu hundaþjálfurum norsku tollgæslunnar.

Námskeiðið tók fjórar vikur og var blanda af bóklegri kennslu og verklegum æfingum. Á námskeiðinu lærðu og æfðu teymi hundaþjálfara og fíkniefnaleitarhunda leit að fíkniefnum við fjölbreyttar aðstæður, m.a. í bifreiðum, íbúðarhúsum, vöruhúsum, skipum, í pósti, farangri og úti á víðavangi. Auk þess fór fram kennsla í hegðunar- og atferlisfræði hunda, leitartækni, þjálfunarfræði, skyndihjálp og þrekþjálfun. Námskeiðinu lauk með bóklegu og verklegu prófi en kröfur sem gerðar eru til teymanna eru með þeim strangari sem þekkjast.

Á námskeiðinu voru sex teymi að þessu sinni. Hundaþjálfararnir koma úr röðum lögreglumanna og tollvarða auk þess sem fangavörður var á námskeiðinu en hann mun verða með fíkniefnaleitarhund í fangelsum ríkisins.

Embætti Ríkislögreglustjóra, sem hefur umsjón með hundamálefnum íslensku lögreglunnar, leggur áherslu á að eiga gott og skipulagt samstarf við tollgæslu og aðrar stofnanir á sviði fíkniefnaleitarhunda, jafnt hérlendis sem erlendis. Áfram verður unnið að uppbyggingu á þessu sviði löggæslunnar í baráttunni gegn fíkniefnum.

Á myndinni eru nemendur og leiðbeinendur á námskeiðinu auk fimm leitarhunda sem óskuðu sérstaklega eftir því að fá að vera með á myndinni. Myndina tók Júlíus Sigurjónsson.