17 Desember 2007 12:00

Í dag kl. 13:00 var tekin fyrir krafa lögreglustjórans á Selfossi um framlengingu farbanns yfir tveimur Pólverjum, sem grunaðir eru um hafa tekið þátt í nauðgun á Selfossi 27. október s.l. Annar þeirra Jaroslaw Pruczynski mætti ekki og við eftirgrennslan lögreglu hefur komið í ljós að hann hefur ekki mætt til vinnu síðan 9. desember s.l. Sterkur grunur leikur á að hann hafi fetað í fótspor landa síns sem einnig er grunaður í sama máli, Przemyslaw Pawel Krymski , sem nú er eftirlýstur af lögreglu fyrir að hafa rofið farbann og yfirgefið Ísland.

Þriðji maðurinn var í dag úrskurður til að leggja fram tryggingu fyrir því að hann yrði tiltækur lögreglu fram til 4. febrúar 2008, kl. 16:00. Beðið er niðurstöðu rannókna á lífsýnum, en búist er við að hún liggi fyrir eftir 6 vikur.

Við rannsókn þessa máls hefur glögglega komið í ljós að farbann er afar veikt úrræði til að tryggja að útlendingar, sem koma frá löndum innan Schengen svæðisins haldi sig á Íslandi meðan þeim er bönnuð för frá Íslandi í samræmi við 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Það er mat lögreglustjóra að grípi þurfi til annarra ráða en nú eru tiltæk og mætti vel hugsa sér að nota nýjustu tækni í því skyni, svo sem staðsetningartæki á viðkomandi auk þess að taka upp tilkynningarskyldu viðkomandi. Að auki mætti taka upp þann hátt að viðkomandi greiði umtalsverða fjárhæð til tryggingar því að þeir séu tiltækir en sæti gæzluvarðhaldi ella að mati dómara.