28 Mars 2014 12:00
Gunnlaugur V. Snævarr lét af störfum við Lögregluskóla ríkisins föstudaginn 28. mars 2014.
Gunnlaugur lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1974 og starfaði jafnan sem lögreglumaður á námsárum sínum og í sumarleyfum. Hann var árið 1988, þegar Lögregluskóli ríkisins varð sjálfstæð stofnun, ráðinn sem yfirkennari með íslensku sem aðalgrein. Árið 1996 skipaði dómsmálaráðherra Gunnlaug til að vera lögreglufulltrúa við skólann.
Stjórnskipulag Lögregluskóla ríkisins var styrkt með lögleiðingu lögreglulaga og í kjölfar þess var Gunnlaugur skipaður yfirlögregluþjónn við skólann. Skólastjóri fól honum þá að vera deildarstjóri grunnnámsdeildar skólans og tilnefndi hann jafnframt sem formann valnefndar skólans.
Að eigin ósk fékk Gunnlaugur lausn frá starfi yfirlögregluþjóns frá og með 1. september 2011. Hann sinnti áfram starfi formanns valnefndar og hefur, með öðrum nefndarmönnum, komið á ágætis fyrirkomulagi við val á nýnemum sem sækja um að stunda lögreglunám.
Gunnlaugur sinnti auk þess sérverkefnum við skólann samkvæmt ákvörðun skólastjóra en hættir nú öllum störfum á vegum skólans.
Á þessum tímamótum þakkar skólastjóri, fyrir hönd samstarfsmanna, Gunnlaugi fyrir vel unnin störf, ánægjulegt og farsælt samstarf með ósk um að honum farnist áfram vel, í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur.
Arnar Guðmundsson, skólastjóri