11 Nóvember 2014 12:00

Lykilfólk í Háaleiti og Laugardal lét sig ekki vanta þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór yfir stöðu mála og þróun brota í hverfunum tveimur á árlegum svæðafundi, sem haldinn var í gær með fulltrúum íbúa úr fyrrnefndum hverfum. Fundarmönnum lá ýmislegt á hjarta en m.a. var rætt um hraðamælingar, eignaspjöll og þjófnaði í skólum. Reiðhjólaþjófnaður var einnig til umræðu, en fundargestum var bent á að á síðunni www.pinterest.com/logreglan má sjá myndir af óskilamunum, t.d. reiðhjólum, sem hafa borist lögreglu frá 1. janúar 2014.

Lögreglan kynnti einnig áherslur og nálgun þegar heimilisofbeldismál eru annars vegar, en embættið vill gera betur í þeim málum, líkt og þegar hefur komið fram á öðrum svæðafundum. Niðurstöður úr könnun, Þolendakönnun – viðhorf til lögreglu, sem lögreglan lét gera í vor og sumar, voru enn fremur kynntar fundargestum. Tölfræði frá fundinum má annars nálgast með því að smella hér. Þess má geta að svæðafundir hafa verið haldnir öll starfsár Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og eru að mati embættisins mjög mikilvægir.