25 Nóvember 2009 12:00

Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram í gær. Að þessu sinni var fundað í þjónustumiðstöðinni í Hvassaleiti 56-58 en til umræðu voru málefni Háaleitis og Laugardals. Farið var yfir þróun brota í hverfunum og rætt um það sem betur mætti fara. Rúmlega þrjátíu manns voru á fundinum en hann er sá þrettándi af þessu tagi sem lögreglan hefur átt með forystufólki á höfuðborgarsvæðinu í haust og vetur. Góð mæting hefur verið á nær alla fundina en þetta form er nú við lýði fjórða árið í röð og hefur heppnast mjög vel.

Nokkrar breytingar hafa orðið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu undanfarið en þær rakti Árni Vigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 1. Fundarmenn höfðu nokkrar áhyggjur að með þeim væri verið að minnka tengsl borgaranna við lögregluna. Árni og Stefán Eiríksson lögreglustjóri, sem einnig sat fundinn, fullvissuðu viðstadda um að svo væri alls ekki. Þvert á móti væri tilgangur lögreglunnar að auka sýnilega löggæslu og efla samskiptin. Nokkur umræða varð einnig um hlutverk svokallaðra hverfislögreglumanna en nú er ætlast til að allir lögreglumenn á viðkomandi svæði geti leyst það starf af hendi þegar svo ber undir. Eftir breytingarnar eru alltaf sömu lögreglumenn á vakt í hverfunum. Fljótlega ættu því íbúar í Háaleiti og Laugardal að geta farið að líta á þessa lögreglumenn sem sína hverfislögreglumenn.

Líkt og í fyrra höfðu fundarmenn ýmislegt um umferðarmálin að segja og komu með ýmsar tillögur um hvar ætti að framkvæma hraðamælingar í hverfunum. Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður umferðardeildar, tók við þessum ábendingum og sagði jafnframt frá áherslum umferðardeildarinnar. Sem fyrr var þó einn megintilgangur fundarins að kynna tölfræði um þróun brota í Háaleiti og Laugardal. Það gerði Haraldur Sigurðsson lögreglufulltrúi með greinargóðum hætti en tölfræðina má nálgast með því að smella hér. Skýringarmyndirnar neðst á síðunni tengjast þessari umfjöllun en efri myndin á við um Háaleiti en sú neðri sýnir þróun mála í Laugardal. Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri kynnti síðan niðurstöður könnunar um reynslu íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Í henni kemur fram að íbúar í Háaleiti og Laugardal eru bara nokkuð sáttir með störf lögreglunnar. Könnunina má nálgast með því að smella hér.