11 Nóvember 2011 12:00

Lithái sem úrskurðaður var í farbann vegna meints innflutnings á kókaíni var í gær gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 2. desember næstkomandi.  Þetta var niðurstaða Hæstaréttar eftir að Lögreglustjórinn á Selfossi kærði til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms um að maðurinn skyldi sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds eins og lögreglustjóri gerði kröfu um.  Lögreglustjórinn taldi hættu á að maðurinn myndi reyna að komast úr landi áður en mál hans yrði til lykta leitt og því væri farbann ekki nægilega örugg leið til að koma í veg fyrir það.  Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið manninn og komið í hendur Fangelsismálastofnunar.