27 September 2002 12:00

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. desember 2001 í málinu Hörður Sigurjónsson gegn embætti ríkislögreglustjóra, dóms- og kirkjumálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.

Hæstiréttur staðfestir þá  niðurstöðu héraðsdóms að rannsóknarlögreglumaðurinn, sem ríkislögreglustjóri færði til í starfi, eigi ekki rétt á sérstöku vaktaálagi sem greitt var vegna starfs hans hjá ríkislögreglustjóra.

Lögreglumaðurinn var skipaður rannsóknarlögreglumaður við embætti ríkislögreglustjóra til fimm ára árið 1997. Þeirri ráðstöfun breytti ríkislögreglustjóri árið 1999 og fól lögreglumanninum að gegna störfum við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, með vísan til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Eftir flutninginn fékk lögreglumaðurinn greidd laun samkvæmt sama launaflokki og áður en missti sérstakt vaktaálag sem greitt hafði verið hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Lögreglumaðurinn höfðaði mál gegn ríkislögreglustjóra og krafðist þess að fá greiddan þann launamismun sem af flutningnum leiddi. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknarlögreglumanninum bæri ekki að fá launamismuninn greiddan. Hæstiréttur hefur staðfest dóminn og sýknað stefndu.

Um dóm Hæstaréttar vísast til heimasíðu réttarins. Slóðin er http://www.haestirettur.is/ifx_hr/?MIval=h_domar&nr=1973