22 Desember 2010 12:00

Nokkuð hefur borið á því að ekið sé inn gamla lónsstæðið við Gígjökul á Þórsmerkurleið. En við gosið í Eyjafjallajökli s.l. vor kom flóð niður með Gígjökli með miklum klaka og aurburði og fyllti upp í gamla lónsstæðið.

Ekki er lengur vatn í gamla lónsstæðinu heldur aur og framburður. Ljóst er að í lónsstæðinu liggja stórir ísjakar sem eru að bráðna og því mjög varasamt að vera þar á ferð. Við bráðnun þessara jaka myndast sandbleytur og vilpur sem hæglega geta gleypt faratæki og fólk.

Lögreglan á Hvolsvelli vill koma þeim skilaboðum áfram til þeirra sem um þetta svæði fara að akstur þarna er stranglega bannaður auk þess sem engir merktir slóðar eru þarna á svæðinu og því um akstur utan vega að ræða.

Meðfylgjandi ljósmynd sýnir hvar bifreið var mjög hætt komin þar um síðustu helgi þegar henni var ekið inn eftir gamla lónsstæðinu. Ljóst er að þarna mátti litlu muna að ekki færi illa. Þarna var verið að aka bifreiðinni yfir, það sem virtist, saklausa lækjarsprænu, en bifreiðin fór hálf á kaf í aur og vatn.

Ljósm. Þorsteinn Jónsson