5 Október 2006 12:00

Hættu áður en þú byrjar er fræðsla á vegum samnefnds forvarnafélags. Hér er um að ræða samstarfsverkefni lögreglunnar í Reykjavík, þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar og Marita á Íslandi, forvarnasviðs Samhjálpar. Forvarnafélagið hefur verið með fræðslu um skaðsemi fíkniefna frá 1998.

Fræðslufulltrúi frá Marita á Íslandi er aðalfyrirlesari en auk hans á fræðslufundinum eru fulltrúi lögreglunnar og þjónustumiðstöðvarinnar í viðkomandi hverfi með erindi. Magnús Stefánssson er fræðslufulltrúi Marita á Íslandi, hann þekkir vel  skuggahliðar fíkniefnaneyslu. Hann er fyrrverandi neytandi sjálfur og hefur spilað í þekktum hljómsveitum. Á fundunum dregur hann m.a. úr þeirri glansmynd sem oft fylgir því lífi. Á landsbyggðinni kemur lögregla og félagsþjónusta á staðnum að fræðslunni ásamt fræðslufulltrúanum. Algengt er að skólar og sveitarfélög á sama svæði standi saman að því að fá fræðsluna og geti þannig skipt með sér kostnaði.

  

–        „Sýndu sjálfstæði, segðu nei”, fyrir nemendur í 8. bekk og foreldra þeirra.

Fræðslufundur sem fer fram á skólatíma með nemendum og með foreldrum síðar. Sýndur er hluti af myndinni sem 9. bekkingar sjá um fíkniefnaneyslu og rætt við nemendur um skaðsemi fíkniefna og glansmyndir sem tengjast þeim heimi. Á fundinum með nemendum sér fræðslufulltrúi um fræðsluna en á foreldrafundinum eru auk hans með erindi fulltrúar lögreglunnar og þjónustumiðstöðva. Fundurinn með nemendum tekur eina klukkustund. En síðan er haldinn sameiginlegur fundur með foreldrum barna í 8. og 9. bekk sem tekur tvær klukkustundir.

Markmið með fræðslunni er að mæta aukinni þörf fyrir fræðslu fyrir þennan aldurshóp. Að ræða við nemendur og gera þeim grein fyrir að sífellt yngri einstaklingar eru að ánetjast fíkniefnum. Gera þeim einnig grein fyrir því að hver og einn ber ábyrgð á sínu lífi og mikilvægi þess að sýna sjálfstæði og segja nei. Á foreldrafundum er leitast við að hvetja foreldra til ábyrgðar á börnum sínum og standa saman. Kynna fyrir foreldrum „menningu” unglinga svo þeir séu sem best undir það búnir að takast á við unglingsár barnsins.

  

–        „Hættu áður en þú byrjar”, fyrir nemendur í  9. bekk og foreldra þeirra.

Fræðslufundur fyrir nemendur á skólatíma og foreldra þeirra síðar. Sýnd er íslensk mynd þar sem reynt er að sýna veruleika fíkniefnaheimsins hér á landi. Fræðslufulltrúi, sem er óvirkur fíkill, ræðir við nemendur um fíknina og afleiðingar hennar m.a. á sitt eigið líf. Lögreglumaður ræðir um afleiðingar fíkniefnaneyslunnar m.a. út frá sakaskrá. Fulltrúi þjónustumiðstöðvar ræðir m.a. um hvert foreldrar geta snúið sér til að fá aðstoð vegna barna sinna. Fundirnir taka tvær klukkustundir.

Markmið með fræðslunni er að reyna fá nemendur til að taka afstöðu gegn fíkniefnum og notkun þeirra. Reynt er að leiða nemendum fyrir sjónir hverjar afleiðingarnar eru. Börn og foreldrar þeirra eru hvött til að ræða um þessi mál sín á milli. Því er nauðsynlegt að þau fái sömu fræðslu, þó nálgun efnisins sé ólík á fundunum.

  

–        „Eftirfylgd” – fyrir nemendur í 10. bekk  og foreldra þeirra”.

Sameiginlegur fundur með nemendum og foreldrum. Á fundinum koma fram fræðslufulltrúi frá Maríta, lögreglumaður og starfsmaður þjónustumiðstöðvar. Sýnd er ný íslensk viðtalsmynd í fræðslunni. Fjallað er um þau tímamót í lífi unglinga sem verða við lok grunnskóla, það að taka ákvarðanir fyrir lífið, og hvernig vímuefnaneysla getur gert framtíðarsýnina að engu. Lögreglumaðurinn fjallar um framhaldsskólakemmtarnir og fleira í þeim dúr. Hópnum er skipt í tvo umræðuhópa, í öðrum hópnum eru unglingarnir sem Magnús Stefánsson fræðslufulltrúi ræðir við og í hinum hópnum eru foreldrar og umræðum þar stýrir fulltrúi þjónustumiðstöðvar, lögreglan er einnig í þeim hópi. Í lokin eru sameiginlegar umræður beggja hópa. Fundurinn tekur eina og hálfa til tvær klukkustundir.

Markmið fræðslufundarins er að ræða um fíkniefni við foreldra og börn og um þá erfiðleika sem neyslan getur valdið. Fá unglingana til að veita tilfinningum sínum athygli og tala um þær. Vekja upp spurningar og reyna að leita svara við þeim.

Allar nánari upplýsingar um fræðsluna veitir Berglind Eyjólfsdóttir, rannsóknarlögreglumaður í forvarna- og fræðsludeild, í síma 444-1142.